Seiglan var FH-inga

Magnús Óli Magnússon er hér að skora fyrir FH gegn …
Magnús Óli Magnússon er hér að skora fyrir FH gegn Fram í gærkvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

FH-ingar unnu sinn fyrsta sigur í Olís-deild karla í handknattleik í gærkvöldi þegar liðið lagði spræka Framara í Safamýri.

Þegar yfir lauk munaði fjórum mörkum á liðunum, 28:24, sem gefur þó ekki rétta mynd af leiknum sem var mjög spennandi. Þegar yfir lauk var það hins vegar einbeitingin sem skilaði FH-ingum stigunum tveimur.

Það var greinilegt í upphafi leiks að mótið er rétt að byrja. Bæði lið hikstuðu nokkuð og nokkrir leikmenn virtust yfirspenntir. Heimamenn voru sérstaklega lengi í gang og skoruðu til að mynda einungis tvö mörk á fyrstu ellefu mínútunum en voru á sama tíma eflaust nálægt því að setja met í töpuðum boltum.

Það vantaði frumkvæði í sóknarleik Framara, menn ætluðu sér um of á meðan FH-ingar voru yfirvegaðir í refsingum sínum hinum megin á vellinum. Ef ekki hefði verið fyrir Kristófer Fannar Guðmundsson í markinu hefði staðan litið verr út fyrir þá bláklæddu í hálfleik þar sem þeir voru þremur mörkum undir, 13:10.

Það var hins vegar allt annað að sjá til heimamanna eftir hlé, þeir unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og komust yfir á tímabili, en aftur var það einbeitingin sem virtist skilja að. Aftur greip um sig einhver yfirspenna þegar leið á með tilheyrandi æsingi á meðan FH-ingar gátu siglt sigrinum nokkuð þægilega heim í lokin. Hugurinn ber þig aðeins hálfa leið, en fór enn lengra hjá Hafnfirðingum.

Nánar er fjallað um leiki gærkvöldsins í Olís-deild karla í handknattleik í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert