Skúli: Stoltur en svekktur

Skúli Gunnsteinsson
Skúli Gunnsteinsson Eva Björk

Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, getur ekki annað en verið nokkuð ánægður með sína menn þrátt fyrir tap gegn Akureyri í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Stjarnan leiddi lengi vel en á endanum skriðu heimamenn í Akureyri fram úr og lönduðu loks 31:27 sigri.

,,Við vorum að spila vel í fyrri hálfleiknum, vorum búnir að kortleggja Akureyringa og héldum algjörlega okkar plani allan hálfleikinn. Vörnin var flott og markmaðurinn byrjaði á að verja nokkra bolta. Í seinni hálfleiknum varð þetta erfiðara og við fórum að taka verri skot og fylgdum ekki almennilega planinu sem lagt var upp með. Við urðum óþolinmóðir og smám saman brotnaði undan okkur. Það má segja að við höfum spilað frábærlega í 45 mínútur og það hlýtur að vera markmiðið að taka heilan leik svoleiðis. Ég er svekktur með tapið en virkilega stoltur af liðinu. Í fjórtán manna hóp eru tíu leikmenn sem hafa enga reynslu í efstu deild og þeir stóðu sig með sóma. Við eigum að geta unnið hvaða lið sem er ef allt gengur upp en 45 mínútur voru ekki nóg í dag. Akureyrarliðið er virkilega sterkt og heimavöllurinn frábær með mikinn stuðning áhorfenda. Ég bjóst því ekki beint við því að við myndum vera yfir lengstum í leiknum“ sagði reynsluboltinn geðprúði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert