Víkingar, ÍH-ingar og Fjölnismenn hrósuðu sigri

Sebastian Alexandersson varði fimm vítaköst fyrir Selfoss gegn Víkingi í …
Sebastian Alexandersson varði fimm vítaköst fyrir Selfoss gegn Víkingi í kvöld en það nægði ekki. Brynjar Gauti

Leikmenn Víkings og ÍH fögnuðu sigrum í leikjum sínum í 1. deild karla í handknattleik í kvöld. Víkingur lagði Selfoss á Selfossi, 24:20, en ÍH vann nýliða IF Mílunnar naumlega, 24:23, í hörkuleik í Kaplakrika.

Í þriðja leik kvöldsins vann Fjölnir lið Þróttar, 27:22, í Laugardalshöll eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. 11:10. Viktor Jóhannsson, leikmaður Þróttar, var útilokaður undir lok leiksins fyrir agabrot. 

Víkingur og Fjölnir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni í haust. 

Víkingi og Selfossi er spáð toppsætum í 1. deild á keppnistímabilinu. Leikur liðanna á Selfossi í kvöld var lengi vel jafn. Lítið var skorað framan af og að loknum fyrri hálfleik var staðan jöfn, 9:9, eftir að Víkingar höfðu skorað fjögur mörk gegn einu á lokamínútunum.

Víkingar náðu fjögurra marka forskoti rétt eftir miðjan síðari hálfleik, 19:15, og létu þá forystu aldrei af hendi.

Sebastian Alexandersson varði m.a. fimm vítaköst í marki Selfoss í leiknum en leikmönnum Víkings lánaðist að skora úr einu.

Viðureign ÍH og Mílunnar var jöfn og skemmtileg að viðstöddum 97 áhorfendum í Kaplakrika. Mílumenn voru marki yfir í hálfleik, 13:12. Liðin skiptust á um að hafa yfirhöndina þar til undir lokin að ÍH komst tveimur mörkum yfir, 23:21. Leikmenn Mílunnar gáfust ekki upp heldur minnkuðu muninn í eitt mark og voru nærri því að jafna metin í lokin. Ólafur Björn Magnússon, markvörður ÍH, kom í veg fyrir að Mílumenn hirtu annað stigið með sér austur fyrir fjalla. Hann varði síðasta skot leiksins rétt áður en flautað var til leiksloka. 

Þróttur - Fjölnir 22:27
Mörk Þróttar: Viktor Jóhannsson 5, Leifur Óskarsson 4, Logi Ágústsson 4, Úlfur Kjartansson 2, Ólafur Guðni Eiríksson 2, Gísli Guðjónsson 2, Elías Baldursson 1, Bergur Vilhjálmsson 1, Eyþór Snæland 1
Mörk Fjölnis: Breki Dagsson 10, Bergur Snorrason 5, Brynjar Loftsson 4, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Sigurður Guðjónsson 2, Björgvin Páll Rúnarsson 2, Kristján Örn Kristjánsson 1. 

Selfoss - Víkingur 20:24
Mörk Selfoss: Andri Már Sveinsson 4, Sverrir Pálsson 4, Egidijus Mikalonis 3, Jóhann Erlingsson 3, Matthías Örn Halldórsson 3, Hörður Másson 2, Daníel Arnar Róbertsson 1.
Mörk Víkings: Arnar Theodórsson 6, Einar Gauti Ólafsson 6, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 4, Egill Björgvinsson 3, Hjálmar Þór Arnarsson 2, Hlynur Óttarsson 1, Jónas Bragi Hafsteinsson 1, Ægir Hrafn Jónsson 1. 

Leikskýrsla hefur ekki borist til mbl.is úr Hafnarfirði frá viðureign ÍH og ÍF Mílunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert