Rúnar og félagar höfðu betur

Árni Þór Sigtryggsson og Rúnar Sigtryggsson.
Árni Þór Sigtryggsson og Rúnar Sigtryggsson. Þórir Ó. Tryggvason

Rúnar Sigtryggson og lærisveinar hans í EHV Aue höfðu betur í sannkölluðum Íslendingaslag í þýsku 2. deildinni í handknattleik í dag. Aue vann þá Emsdetten, 27:22, á heimavelli en með báðum liðum leikur hópur íslenskra handknattleiksmanna.

Aue var marki undir í hálfleik á heimavelli, 12:11, en sneri taflinu við í síðari hálfleik. 

Bjarki Már Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Aue sem er í 10. sæti deildarinnar með 6 stig eftir sex leiki. Sigtryggur, sonur Rúnars þjálfara, skoraði ekki mark, en hann tók þátt í leiknum. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue hluta leiksins. Árni Þór, bróðir Rúnars, lék ekki með liðinu.

Oddur Gretarsson, og fyrrverandi liðsfélagi Rúnars og Árna Þórs, í Akureyri handboltafélagi og Þór Akureyri, skoraði þrjú mörk fyrir Emsdeten og brást bogalistinn í einu vítakasti. Anton Rúnarsson, sem einnig á ættir að rekja til Akureyrar, skoraði eitt mark fyrir Emsdetten. Ernir Hrafn Arnarson, fyrirliði, náði ekki að skora. Þá er Ólafur Bjarki Ragnarsson á sjúkralista ennþá eftir að hafa slitið krossband snemma á árinu.

Emsdetten hefur sex stig í 13. sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert