Áhorfendamet í Mosó í kvöld?

Afturelding hefur farið afskaplega vel af stað á leiktíðinni og …
Afturelding hefur farið afskaplega vel af stað á leiktíðinni og unnið alla sex leiki sína. mbl.is/Eva Björk

Mosfellingar ætla sér að setja áhorfendamet þegar topplið Aftureldingar fær Hauka í heimsókn í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik. Búast má við spennuleik.

Afturelding er með fullt hús stiga eftir sex umferðir en Haukar eru með helmingi færri stig eða sex. Allir leikir Hauka til þessa hafa verið spennuþrungnir og ekki unnist á meira en einu marki.

Sjöunda umferðin hefst norðan heiða þar sem Akureyri tekur á móti FH kl. 19. FH-ingar eru með 7 stig í 3. sæti en Akureyringar stigi minna og geta því komist upp fyrir Hafnfirðinga í kvöld.

HK vann stórsigur á Fram í síðasta heimaleik sínum en fékk mikinn skell í Vestmannaeyjum á mánudaginn, í frestuðum leik. HK-ingar mæta ÍR sem tapaði sínum fyrsta leik í síðustu umferð í toppslagnum gegn Aftureldingu.

Nýliðar Stjörnunnar hafa tapað naumlega í síðustu leikjum gegn ÍBV og Val, eftir jafntefli við Hauka, og þeir mæta Fram í Mýrinni í Garðabæ, sem nú heitir TM Höllin. Tala má um fallslag því Framarar eru í neðsta sæti deildarinnar og hafa tapað fimm leikjum í röð eftir sigur á Haukum í 1. umferð. Stjarnan er með 3 stig.

Umferðinni lýkur með leik Vals og ÍBV kl. 16 á laugardag.

Leikir kvöldsins:
19.00 Akureyri - FH
19.30 HK - ÍR
19.30 Stjarnan - Fram
19.30 Afturelding - Haukar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert