ÍR vann í spennuleik í Digranesi

Björgvin Hólmgeirsson brýtur sér leið framhjá vörn HK.
Björgvin Hólmgeirsson brýtur sér leið framhjá vörn HK. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

ÍR-ingar styrktu stöðu sína í 2. sæti Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld með því að leggja HK að velli í Digranesi í æsispennandi leik, 30:28. ÍR er því með 10 stig eftir 7 umferðir en HK aðeins 2 stig.

ÍR byrjaði leikinn betur og hafði raunar frumkvæðið mestallan leikinn. HK-ingar tóku stórskyttuna Björgvin Hólmgeirsson úr umferð nánast allan leikinn og það gekk vel upp. Eftir að hafa lent fjórum mörkum undir, 8:4, náðu þeir að minnka muninn í eitt mark skömmu fyrir hálfleik en ÍR bætti svo í og var þremur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 15:12.

Markverðir liðanna vörðu báðir frábærlega í fyrri hálfleik og héldu því áfram eftir hlé, sérstaklega Lárus Helgi Ólafsson í marki HK-inga sem varði oft úr dauðafærum. Með hann í stuði í markinu og meiri grimmd í sóknarleiknum tókst heimamönnum smám saman að jafna metin og búa til æsispennandi lokakafla.

Mikill hiti var í leiknum í seinni hálfleik og alls fengu ÍR-ingar sex brottvísanir í leiknum en HK-ingar fjórar. Andri Þór Helgason minnkaði muninn í eitt mark þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka en Björgvin skoraði þá eitt af fimm mörkum sínum. HK gafst ekki upp og minnkaði muninn aftur í eitt mark þegar um hálf mínúta var eftir, og Lárus varði svo frá Arnari Birki Hálfdánssyni í lokasókninni. Jón Heiðar Gunnarsson náði hins vegar frákastinu og innsiglaði sigur ÍR-inga með sínu sjötta marki.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn innan skamms.

HK 28:30 ÍR opna loka
60. mín. Valdimar Sigurðsson (HK) skoraði mark Flott mark af línunni eftir sendingu Garðars.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert