Svavar: Þessi aðferð þeirra gekk upp

Andri Þór Helgason úr HK reynir skot á Svavar í …
Andri Þór Helgason úr HK reynir skot á Svavar í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar

„Þetta var bara hörkuleikur. HK spilaði virkilega vel í seinni hálfleik, við vorum góðir í þeim fyrri en duttum aðeins niður í seinni hálfleik,“ sagði Svavar Már Ólafsson markvörður ÍR sem varði 17 skot í sigrinum á HK í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi en ÍR vann að lokum 30:28 eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Svavar varði níu skot í fyrri hálfleiknum.

„Ég fann mig vel í fyrri hálfleik en datt aðeins niður eins og liðið í seinni hálfleik. En svo komum við allir upp í lokin,“ sagði Svavar. ÍR þurfti að sækja án Björgvins Hólmgeirssonar stærstan hluta leiksins því hann var tekinn úr umferð, en skyttan hefur skorað tæplega 10 mörk að meðaltali í leik í vetur.

„Björgvin hefur staðið sig virkilega vel og er einn af okkar bestu mönnum en við spilum best sem lið. Þessi aðferð þeirra gekk alveg upp, sóknarleikur okkar var stirðari en áður, en við unnum og erum bara sáttir með það,“ sagði Svavar.

ÍR er í 2. sæti deildarinnar og hefur aðeins tapað einum af fyrstu sjö leikjum sínum, gegn toppliði Aftureldingar.

„Við erum virkilega sáttir með þetta. Liðið er hörkugott og menn að vinna virkilega vel saman,“ sagði Svavar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert