„Sýndu mikinn vilja“

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. AFP

Lærisveinum Arons Kristjánssonar í danska liðinu KIF Kolding tókst að ná jafntefli gegn spænska stórliðinu Barcelona þegar liðin áttust við í Bröndby-höllinni í Danmörku í toppslag B-riðils Meistaradeildarinnar í handknattleik í gær.

Rúmlega 5 þúsund áhorfendur urðu vitni að æsispennandi leik en honum lyktaði með jafntefli, 27:27, þar sem Kolding skoraði tvö síðustu mörkin og jöfnunarmarkið skoraði Svíinn Martin Per Dolk þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka. Liðin eru efst og jöfn í riðlinum með 7 stig en Flensburg kemur þar á eftir með 6 stig.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Barcelona sem öll komu í fyrri hálfleik en markahæstur í stjörnu prýddu liði Katalóníuliðsins var Frakkinn Nikola Karabatic sem skoraði 6 mörk.

„Ég er mjög ánægður með að hafa tekið stig eins og leikurinn þróaðist. Við vorum alltaf að elta. Við fórum illa með mörg góð færi og á móti svona góðu liði eins og Barcelona er má það ekki. En mínir menn gáfust aldrei upp. Þeir sýndu mikinn vilja og það ásamt smá heppni undir lokin tryggði okkur stigið,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Kolding, við Morgunblaðið eftir leikinn.

Það hefur gengið allt í haginn hjá Aroni og strákunum hans en liðið er taplaust í deildinni og er með 5 stiga forskot á toppnum.

„Það gengur vel hjá okkur og það er auðvitað mjög ánægjulegt. Við ætlum okkur að komast lengra í Meistaradeildinni heldur en í fyrra en það er auðvitað mikið eftir. Lið mitt er mjög vel einbeitt og það verður að vera þannig áfram,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert