Bjarki Már átti stórleik

Bjarki Már Elísson í loftinu í leik með Eisenach.
Bjarki Már Elísson í loftinu í leik með Eisenach. Ljósmynd/thsv-eisenach.de

Bjarki Már Elísson fór hamförum með Eisenach í kvöld þegar liðið vann Rimpar, 28:26, á útivelli í 32-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Bjarki Már skoraði 10 mörk, eða um þriðjung marka liðsins sem fagnaði öðrum sigri sínum í röð og sæti í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Hannes Jón Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Eisenach.

Sigurbergur Sveinsson skoraði þrjú mörk fyrir Erlangen sem vann Wetzlar á heimavelli, 26:23, í bikarkeppninni í kvöld. 

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði eitt mark fyrir Burgdorf í sigri á HSV Hamburg, 28:25.

Rhein-Neckar Löwen vann Horkheim, 37:27, á útivelli. Stefán Rafn skoraði þrjú mörk fyrir Löwen en Alexander Petersson ekkert.

Íslensku þjálfararnir Dagur Sigurðsson og Geir Sveinsson fögnuðu einnig sigrum og sæti í 16-liða úrslitum í bikarkeppninni. Füchse Berlin, lið Dags, vann Essen, 29:21, á útivelli, og lærisveinar Geirs í Magdeburg unnu Hildesheim, 35:25, á útivelli.

Emsdetten tapaði á heimavelli fyrir GWD Minden, 34:32, þar sem Ernir Hrafn Arnarson skoraði átta mörk fyrir Emsdetten, Oddur Gretarsson fimm en Anton Rúnarsson komst ekki á blað.

Þá féll Bergischer úr leik með tapi á heimavelli fyrir Lübbecke, 32:26, á heimavelli. Arnór Þór Gunnarsson komst aldrei þessu vant ekki á blað yfir markaskorara Bergischer. Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert