Garðar: Of margar rangar ákvarðanir

„Þetta var hörkuleikur í 50 mínútur en síðan ekki söguna meir," sagði Garðar Benedikt Sigurjónsson, línumaður Fram daufur í bragði, eftir sjötta tap liðsins í átta leikjum  í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld. Fram tapaði á heimavelli fyrir Val, 25:20, í sveiflukenndum leik.

„Við byrjuðum ágætlega og voru yfir 2:1, en síðan snerist taflið við og eftir um 20 mínútur voru við komnir sjö mörkum undir, 11:4. Á þeim tíma lék við illa og Valsliðið refsaði okkur með hraðaupphlaupum," sagði Garðar en eftir tapið í kvöld er Fram-liðið í níunda sæti, einu stigi á undan Stjörnunni sem rekur lestina. 

„Við náðum að koma leiknum niður í eitt mark nokkrum sinnum í síðari hálfleik en á lokasprettinum þá misstum við móðinn," sagði Garðar en fyrrverandi samherji hans og annarra Framarar, Stephen Nielsen markvörður, reyndist sínum gömlu samherjum erfiður. „Stephen er góður markvörður en án þess að ég vilji taka nokkuð af honum þá er alveg ljóst að við tókum ekki alltaf bestu ákvarðanirnar þegar kom að skotum. Við eigum samt að geta gert betur því við létum hann verja of mikið af dauðafærum," sagði Garðar. 

„Mér fannst við vera að ná Valsmönnum þegar tíu mínútur voru eftir sú var ekki raunin," sagði Garðar B. Sigurjónsson, línumaður Fram en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert