Leó: Ágætt að fara með þetta inn í landsleikjafríið

Leó Snær Pétursson í kunnulegri stöðu.
Leó Snær Pétursson í kunnulegri stöðu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hornamaðurinn Leó Snær Pétursson innsiglaði óvæntan 25:22 sigur HK á toppliði Aftureldingar í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld með marki úr horninu á lokamínútunni. 

„Afturelding er með gríðarlega sterkt lið og vel mannað í hverri stöðu en með þessa baráttu sem við sýndum í kvöld þá getum við kroppað stig gegn hverjum sem er. Allir voru á sama plani innan liðsins, þrátt fyrir að við værum án Þorkels og Guðna sem eru mikilvægir leikmenn fyrir okkur,“ sagði Léo þegar Mbl.is ræddi við hann í kvöld. 

Þjálfarinn Bjarki Sigurðsson ýjaði að því í sjónvarpsviðtali að einhver ummæli, eða umræða, um HK-liðið hefði hleypt illu blóði í menn og peppað HK-inga upp fyrir leikinn. Leó gerði ekki mikið úr því og sagðist alla vega ekki hafa velt sér mikið upp úr umræðunni í fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum. „Við erum ekki mikið að spá í því. Við tökum bara einn leik í einu og vissulega eru allir leikir erfiðir fyrir okkur. Við sýndum þó í kvöld að við getum tekið stig á móti öllum og ágætt að fara inn í landsleikjafríið með þessi úrslit,“ sagði Leó ennfremur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert