Arnór Þór: Ekkert vanmat

„Við erum staðráðnir í að leika vel gegn Ísrael á miðvikudagskvöldið,“ segir Arnór Þór Gunnarsson, hornamaður íslenska landsliðsins í handknattleik, um leikinn sem markar upphaf undankeppni Evrópumótsins í handknattleik þegar landslið Ísraels mætir til leiks í Laugardalshöllinni. 

„Við erum reynslunni ríkari og erum staðráðnir í að vinna leikinn við Ísrael og stíga fyrsta skrefið til þess að koma okkur á EM í Póllandi eftir rúmt ár," segir Arnór Þór.

Forráðamenn íslenska landsliðsins hafa viðað að sér eins miklu af upptökum af ísraelska landsliðinu og kostur er á. Arnór segir þegar hafi verið farið yfir leik Ísraelsmanna í herbúðum íslenska landsliðsins og þeirri vinnu verður haldið áfram í dag. „Vanmat kemur ekki til greina,“ segir Arnór Þór Gunnarsson, en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði. 

Leikur Íslendinga og Ísraelsmanna hefst í Laugardalshöllinni annað kvöld kl. 19.30. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert