Bosníuleikirnir í vor veita bensín fyrir kvöldið

Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson mbl.is/Eva Björk

„Við erum klárlega betra liðið og auðvitað yrði það hrikalega lélegt að vinna ekki Ísrael á heimavelli. En það getur gerst, eins og menn hafa brennt sig á í öllum íþróttum. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og vera vel stemmdur. Ég held að við séum það. Þetta er gríðarlega mikilvæg undankeppni fyrir allt sem viðkemur handboltanum á Íslandi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson við Morgunblaðið á fréttamannafundi í gær, fyrir leikinn við Ísrael í nýrri undankeppni EM sem fram fer í Laugardalshöll í kvöld.

Snorri Steinn dregur ekkert úr mikilvægi leiksins og þess að komast í lokakeppni EM í Póllandi 2016, eftir vonbrigðin sem fólust í því að tapa fyrir Bosníu í HM-umspilinu í sumar.

„Handboltinn í heild sinni hér á landi hefur svolítið lifað á karlalandsliðinu. Það segir sig bara sjálft. Þetta „hype“ sem jafnan verður í janúar á hverju ári, þar sem HSÍ og handboltinn er í sviðsljósinu, það ýtir undir allt. Til dæmis fyrir krakka sem vilja þá fara að æfa handbolta. Það er enginn heimsendir að missa af einu stórmóti en ef það gerist aftur og aftur þá verður til erfið brekka að klífa, líka vegna styrkleikaröðunar í undankeppnunum. Þess vegna er mikilvægt að við komumst strax aftur inn,“ sagði Snorri. Lokakeppni EM er jafnframt eini „glugginn“ sem Ísland getur nýtt til að komast á Ólympíuleikana í Ríó 2016.

Nánar er fjallað um landsleikinn gegn Ísrael í kvöld í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert