Dagur ákvað sig í bakaríinu

Dagur Sigurðsson stýrir Þýskalandi í fyrsta sinn í mótsleik þegar …
Dagur Sigurðsson stýrir Þýskalandi í fyrsta sinn í mótsleik þegar liðið mætir Finnlandi í kvöld. AFP

Dagur Sigurðsson segist í samtali við Hamburger Abendblatt ekki hafa þurft langan tíma til að ákveða að taka við þýska landsliðinu í handknattleik.

„Þetta tók stuttan tíma. Ég fór í göngutúr með konunni minni og hundinum út í bakarí. Þar er gott að ræða mikilvægu hlutina í lífinu. Eftir 15 mínútur var ljóst hver ákvörðunin yrði,“ sagði Dagur.

„Ástæðan var fyrst og fremst sú hve rík hefð er fyrir handbolta í Þýskalandi. Í öðru lagi er þýska deildin sú besta í heimi og í þriðja lagi er mikið úrval hæfileikaríkra manna að koma upp. Ég vildi gera eitthvað nýtt og fara út fyrir þægindarammann,“ sagði Dagur sem samhliða því að stýra Þýskalandi verður þjálfari Füchse Berlin út tímabilið.

Þýskaland á fyrir höndum fyrstu alvöru leikina undir stjórn Dags en liðið mætir Finnum í kvöld og Austurríki á sunnudaginn í undankeppni EM, þeirri sömu og Ísland mætir Ísrael í í Laugardalshöll í kvöld. Dagur segir enga skyldu að vinna tvo fyrstu leikina.

„Til að byrja með vil ég alla vega vinna Finnland. Austurríki vann hins vegar Tékkland á síðasta EM, 30:20, á móti sem við komumst ekki einu sinni inná,“ sagði Dagur, sem mætir sínum gamla samherja í íslenska landsliðinu, Patreki Jóhannessyni, á sunnudaginn en Patrekur stýrir Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert