Fer Guðmundi vel að vera rólegri

Guðmundur Guðmundsson tók við danska landsliðinu af Ulrik Wilbek í …
Guðmundur Guðmundsson tók við danska landsliðinu af Ulrik Wilbek í sumar. Ljósmynd/dhf.dk

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu í handknattleik segja að ekki felist stórvægilegar breytingar í því að hafa Guðmund sem þjálfara í stað Ulrik Wilbek, sem stýrði liðinu með frábærum árangri um árabil.

Markvörðurinn Niklas Landin lék undir stjórn Guðmundar hjá Rhein-Neckar Löwen og segist sjá mikinn mun á Guðmundi nú og á þeim tíma.

„Hann er eiginlega mjög rólegur. Ég veit ekki hvenær hann fer í gang. Hann hefur ekkert verið í því að háskamma neinn. Hérna hefur hann verið mjög rólegur og ekki eins stressaður og hann var í Þýskalandi. Það fer honum bara vel að vera aðeins afslappaðri,“ sagði Landin við BT. Hann segir helsta muninn á danska landsliðinu undir stjórn Guðmundar annars vegar og Wilbeks hins vegar, felast í vörninni.

„Það er helst að vera með sókndjarfa leikmenn í vörninni. Það þekki ég frá Rhein-Neckar Löwen. Ég er spenntur að sjá hvort það gangi ekki mjög vel hjá okkur. Alexander Petersson er mjög sterkur og fljótur og gat hlaupið út og haldið sínum manni. Ég er spenntur að sjá hvort okkar menn í hans stöðu ráði við það, því við erum vanari að vera með flata vörn,“ sagði Landin. Rætt var um það þegar Guðmundur var ráðinn að nú ættu dönsku landsliðsmennirnir fyrir höndum mun fleiri æfingar en áður. Sú virðist þó ekki raunin.

Guðmundur er lokaðri

„Nei, æfingaálagið er það sama. Núna æfum við reyndar á fimmtudegi, á leikdag, sem við höfum ekki gert áður. Hann lokaði líka æfingunni á miðvikudaginn fyrir áhorfendum, og hluta hennar fyrir fjölmiðlum. Það man ég ekki eftir að Wilbek hafi nokkru sinni gert. Hann er heldur ekki eins opinn og Ulrik. Hann er aðeins lokaðri. Þetta var alltaf svona í Rhein-Neckar Löwen. Þar var hann ískaldur, þetta átti bara að vera lokað,“ sagði Landin.

Bo Spellerberg og Anders Eggert taka í svipaðan streng og markvörðurinn.

„Guðmundur fer meira út í smáatriðin hvað nokkra þætti varðar [heldur en Wilbek gerði]. Hann er með skýrar hugmyndir um það hvernig vörnin skuli vera, og leggur mikið upp úr því að skýra það út í ystu æsar,“ sagði Spellerberg.

Munurinn felst í vörninni

„Maður verður alltaf að passa hvað maður segir,“ sagði Eggert. „En stærsta breytingin er í vörninni. Hann notar annað kerfi en Wilbek. Án þess að vera of fræðilegur þá mun fólk sjá að við vorum aftar í vörninni hjá Wilbek, en komum meira fram í kerfinu hjá Guðmundi. Hjá honum er öll vörnin duglegri við að mæta út í sóknarmennina,“ bætti hann við.

Niklas Landin þekkir vel til Guðmundar.
Niklas Landin þekkir vel til Guðmundar. Ljósmynd/dhf.dk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert