Fyrsta stigið hjá Birnu og félögum

Birna Berg Haraldsdóttir í leik með Sävehof
Birna Berg Haraldsdóttir í leik með Sävehof Gudmund Svansson- Pic-Agency Sweden

Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, og samherjar hennar í sænska meistaraliðinu Sävehof, kræktu í fyrsta stig sitt í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í kvöld þegar liðið gerði jafntefli við Logomotiva Zagreb, 29:29.

Leikurinn fór fram í Partille, heimavelli Sävehof. Hann var hörkuspennandi og skemmtilegur enda vildu bæði lið tryggja sér fyrsta sigurinn í Meistaradeildinni á þessu keppnistímabili.

Birna Berg náði ekki að skora mark í leiknum í kvöld. 

Sävehof og Logomotiva Zagreb hafa eitt stig hvort eftir þrjá leiki í C-riðli. Ungversku Evrópumeistararnir í Györi og danska liðið Viborg hafa krækt í fjögur stig hvort lið í tveimur leikjum en liðin mætast í Viborg á Jótlandi á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert