Eins og nýtt lið undir stjórn Atla

Atli Hilmarsson líflegur á hliðarlínunni í leiknum gegn Haukunum í …
Atli Hilmarsson líflegur á hliðarlínunni í leiknum gegn Haukunum í gærkvöld. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Akureyringar unnu þriðja leik sinn í röð í Olísdeild karla í gær þegar þeir fóru illa með Hauka fyrir norðan, 28:21.

Atli Hilmarsson hefur snúið gengi liðsins við og vörnin sem átti víst að vera úr sér gengin hefur pakkað hverju liðinu á fætur öðru saman eftir þjálfaraskiptin. Þriðja leikinn í röð héldu heimamenn mótherjum sínum undir tíu mörkum í fyrri hálfleik og rétt eins og í síðasta leik Akureyringa var grunnurinn að sigri lagður þá.

Heimamenn spiluðu eins og kóngar nánast allan fyrri hálfleikinn þrátt fyrir mikil skakkaföll. Strax á fyrstu mínútu fór herforinginn Heimir Örn Árnason meiddur af velli eftir samstuð við Árna Stein Steinþórsson. Arftaki hans, Brynjar Hólm Grétarsson, fór sömu leið mínútu síðar.

Heiðar Þór Aðalsteinsson og Bergvin Þór Gíslason voru svo boxaðir niður áður en Ingimundur Ingimundarson þurfti að yfirgefa völlinn meiddur á fingri. Af þessu mætti halda að Haukarnir hafi ekki verið að spila mikinn handbolta. Þeir voru vissulega harðir en ekkert verri en gengur og gerist. Áhorfendur upplifðu öll þessi átök og meiðsli á annan hátt og voru brjálaðir jafnt út í Haukana sem og dómara leiksins. Vörnin var eins og grjótmulningsvél og tætti hún sóknarmenn Hauka í sig sem á endanum urðu hálfsmeykir og máttvana.

Sjá allt um leikina í Olís-deildinni í þróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert