Konurnar hans Þóris slá met

Þórir Hergeirsson hefur veriðs sigursæll með norska kvennalandsliðið síðan hann …
Þórir Hergeirsson hefur veriðs sigursæll með norska kvennalandsliðið síðan hann tók við stjórn þess fyrir sex árum. því hefur verið haldið fram að norska kvennalandsliðið sé vinsælasta hópíþróttalið Noregs. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gríðarlegur áhugi er í Noregi fyrir kvennalandsliðinu í handknattleik. Svo virðist sem hann hafi sjaldan verið eins mikill og nú en skammt er í að Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari, hefji lokaundirbúning fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Ungverjalandi og Króatíu í desember.

Norska landsliðið tekur þátt í fjögurra liða móti á heimavelli í lok nóvember og er áhugi heimamanna fyrir leikjum liðsins mikill en norska liðið mætir Serbum, Danmörku og Frakklandi. Þegar er uppselt á leikinn við Serba sem fram fer í Oslo Spektrum. Alls runnu tæplega 6.600 aðgöngumiðar út eins heitar lummur á fáeinum stundum eftir að opnað var fyrir miðasölu. Aldrei hafa selst fleiri miðar á landsleik í Oslo Spektrum. Fyrra met var sett árið 2012 þegar norska karlalandsliðið mætti Ungverjum í undankeppni EM. Þá seldust 5.500 miðar. 

Viðureignir norska landsliðsins við Dani og Frakka fara fram í Larvik. Þar mun enn vera hægt að fá miða.

Þórir hefur undirbúning norska kvennalandsliðsins fyrir EM eftir næstu helgi. Hann hefur þegar valið 12 leikmenn í landsliðið en mun tilkynna um val á fjórum leikmönnum til viðbótar fljótlega en afar hörð samkeppni er um stöðu í liðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert