Dagur fær þríeyki til aðstoðar

Dagur Sigurðsson er ánægður með aðstoðarþjálfara sína.
Dagur Sigurðsson er ánægður með aðstoðarþjálfara sína. AFP

Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins í handknattleik, hefur ákveðið að fá þá Alexander Haase og Axel Kromer sem aðstoðarþjálfara hjá landsliðinu. Þá mun Henning Fritz koma að markvarðaþjálfun landsliðsins.

Tilkynnt var um ráðningu þríeykisins í dag en tæpir tveir mánuðir eru í fyrsta stórmót Dags með þýska landsliðinu, HM í Katar, sem hefst 15. janúar.

Kromer, sem er 36 ára, hafði þegar aðstoðað Dag fyrir leikina við Finnland og Austurríki í undankeppni EM fyrir skömmu, en hann hefur verið aðstoðarþjálfari unglingalandsliðsins. Haase, sem er 38 ára, og Dagur þekkjast svo vel eftir að hafa unnið saman hjá Füchse Berlin um árabil.

„Með þeim Alexander og Axel fæ ég tvo unga en þegar mjög reynda þjálfara til að aðstoða mig. Alexander hef ég þekkt vel um árabil og Axel hefur auga fyrir litlum atriðum sem við þurfum til að ná árangri. Hann er líka með góða yfirsýn yfir unga iðkendur í þýskum handbolta. Ég hlakka til að vinna með þeim. Sex augu sjá betur það sem þarf að sjá,“ sagði Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert