Lærisveinar Arons langefstir

Aron Kristjánsson hefur átt afar góðu gengi að fagna sem …
Aron Kristjánsson hefur átt afar góðu gengi að fagna sem þjálfari KIF Kolding. mbl.is/Ómar

Danska meistaraliðið KIF Kolding, undir stjórn Arons Kristjánssonar landsliðsþjálfara, hefur enn ekki tapað leik í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í vetur og jók forskot sitt á toppnum í átta stig í kvöld.

KIF Kolding vann í kvöld fjögurra marka sigur á Team Tvis Holstebro, 30:26. Team Tvis byrjaði leikinn reyndar vel og komst meðal annars í 13:8, en svo tóku lærisveinar Arons við sér.

Aron og hans menn hafa ekki tapað leik í dönsku deildinni í síðustu 26 leikjum. Í 13 leikjum á tímabilinu hafa þeir unnið 12 og gert 1 jafntefli. Þeir eru nú átta stigum á undan Aalborg sem tapaði fyrir SönderjyskE, 27:21.

Ólafur Gústafsson er að komast í gang eftir meiðsli og var í liði Aalborg en ekki á meðal markaskorara. Daníel Freyr Andrésson fékk lítið að spreyta sig í marki SönderjyskE, sem er með 15 stig, 10 stigum á eftir KIF Kolding.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert