Benedikt lengur frá en Magnús líklegur

Magnús Óli Magnússon er hér að skora fyrir FH á …
Magnús Óli Magnússon er hér að skora fyrir FH á móti Haukum á Ásvöllum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við vonumst til Magnús Óli geti spilað en Benedikt verður örugglega ekki með,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH í handknattleik, við Morgunblaðið í gær en í kvöld er Hafnarfjarðarslagur í Olís-deildinni þegar Haukar fá granna sína í heimsókn.

Þeir Magnús Óli Magnússon, skytta og leikstjórnandi, og hornamaðurinn Benedikt Reynir Kristinsson sátu í borgaralegum klæðum í stúkunni í Kaplakrika á mánudaginn þegar FH lagði Fram en báðir glíma þeir við meiðsli. Benedikt tognaði á kálfa á æfingu á sunnudaginn en Magnús sneri sig á ökkla þann sama dag.

Halldór Jóhann á ekki von á öðru en hörkuleik gegn Haukunum í kvöld.

„Við verðum undirbúnir undir hvað sem er. Staða liða í deildinni og gengi þeirra skiptir engu máli þegar þau mætast. Leikir á milli þessara liða eru ávallt hörkuleikir sem vinnast á lífi og sál, dagsformi og ákveðnum klókindum. Það vill enginn tapa þessum leik. Við vitum að Haukarnir mæta alveg dýrvitlausir. Þeir eru örugglega ekki alveg 100% sáttir við gengi sitt í vetur. Þeir töpuðu fyrir okkur fyrr í vetur og síðan töpuðu þeir illa fyrir Akureyri í vikunni. Ég býst því við hörkuleik og vonandi fjölmenna Hafnfirðingar á leikinn,“ sagði Halldór.

FH hafði betur í leik liðanna í Kaplakrika í lok september, 25:24. FH-ingar eru í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig, stigi á eftir toppliðunum Aftureldingu og Val. Haukarnir sitja hins vegar í sjötta sætinu með 11 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert