Sjúkralistinn er langur hjá Akureyringum

Ingimundur Ingimundarson.
Ingimundur Ingimundarson. mbl.is/Kristinn

Fjórir leikmenn Akureyrar handboltafélags eru á sjúkralista um þessar mundir og að sögn Atla Hilmarssonar, þjálfara liðsins, eru ekki horfur á að nokkur þeirra verði með í næsta leik en þá sækja Akureyringar Stjörnuna heim á laugardaginn.

„Ingimundur fór úr fingurlið í leiknum við Hauka og við það hefur brotnað upp úr beini. Þetta var staðfest eftir skoðun hjá Brynjólfi Jónssyni lækni. Eins og staðan er má reikna með að Ingimundur verði frá keppni í þrjár til fjórar vikur. Reyndar er verið að skoða hvort hægt sé að teipa fingurinn svo Ingimundur geti tekið þátt í varnarleiknum. Hvort það tekst verður að koma í ljós,“ sagði Atli við Morgunblaðið í gær.

Auk Ingimundur verður Brynjar Hólm Grétarsson frá keppni í tvær til fjórar vikur. Hann tognaði illa á úlnlið í leiknum við Hauka á mánudagskvöldið. Heimir Örn Árnason tognaði á ökkla. „Heimir Örn verður örugglega frá í viku til tíu daga hið minnsta,“ sagði Atli.

Auk þess hefur Andri Snær Stefánsson barist við eymsli í hæl síðustu vikur. „Því miður sér ekki fyrir endann á þeim meiðslum. Andri var reyndar eitthvað skárri í gær en hvað það endist er ekki gott að segja,“ segir Atli, sem hefur snúið við gengi Akureyrarliðsins eftir að hann tók við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert