„Þú getur ekkert platað líkamann“

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Eva Björk

Óheppnin hefur elt landsliðsmanninn Aron Pálmarsson, leikmann Þýskalandsmeistara Kiel, og sem stendur er hann frá keppni vegna meiðsla.

Aron varð fyrir því óláni að rífa vöðva aftan í læri í leik gegn N-Lübbecke fyrir fimm vikum. Hann sneri til baka inn á völlinn í síðustu viku og spilaði með Kiel í sigurleiknum á móti Erlangen.

En það var stutt gaman hjá Aroni. Meiðslin tóku sig upp að nýju en landsliðsmaðurinn vonast þó til að geta byrjað að spila aftur í næstu viku.

Aron var á leið á æfingu með lyftingaþjálfara Kiel þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

„Ég fór bara of snemma af stað því það kom í ljós að þetta var ekki gróið. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á en ég átti auðvitað ekki að spila leikinn á móti Erlangen. Ég var búinn að æfa daginn áður og gat gert allt en ég fékk högg á lærið og það gerði auðvitað illt verra. Það er nú þannig með svona meiðsli að þú getur ekkert platað líkamann.

Ef allt gengur að óskum ætti ég að vera orðinn leikfær eftir sjö til tíu daga en þetta eru leiðindameiðsli og ég verð að vera skynsamur og hlusta á líkamann. Það þýðir ekkert að byrja aftur og vera 80% því þá er hætta á að vöðvinn rifni á ný. Þetta læri á mér er búið að vera í algjöru rugli,“ sagði Aron við Morgunblaðið í gær en á Evrópumótinu í Danmörku í janúar voru það hnémeiðsli sem voru að angra leikmanninn.

Aron var því fjarri góðu gamni þegar Kiel mætti Göppingen á útivelli í gær og ljóst að hann missir af stórleiknum á móti París SG í Meistaradeildinni á laugardaginn. Á miðvikudag tekur Kiel á móti Zagreb í Meistaradeildinni og gerir Aron sér vonir um að taka þátt í þeim leik.

Sjá allt viðtalið við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert