Álfusamböndin völdu Ísland og Sádi-Arabíu

Gunnar Magnússon og Aron Kristjánsson eru á leið á HM …
Gunnar Magnússon og Aron Kristjánsson eru á leið á HM í Katar. mbl.is/Eva Björk

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, staðfesti rétt í þessu að Ísland og Sádi-Arabía tækju sæti Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna á HM 2015 í Katar með tilkynningu á vef sínum.

Ekki var tekið tillit til þess að þjóðirnar tvær hefðu viljað hætta við að hætta og þær voru sektaðar um 100 þúsund svissneska franka (12,8 milljónir ísl.kr.) hvor um sig fyrir að draga sig úr keppni.

Yfirlýsingin er þannig:

„Á fundi framkvæmdastjórnar IHF í Herzogenaurach (Þýskalandi) 21. nóvember þurfti að taka fyrir þá ákvörðun Barain og Sameinuðu arabísku furstadæmanna að draga sig úr keppni á HM 2015.

Framkvæmdastjórnin leit svo á að þetta væru endanlegar tilkynningar, og tók því ekki tillit til annarra bréfaskrifta þessara tveggja handknattleikssambanda.

Framkvæmdastjórn IHF ákvað að sekta hvort samband fyrir sig um 100 þúsund svissneska franka fyrir að draga sig úr keppni eftir að mótinu hafði verið raðað upp.

Samkvæmt úrslitum innan viðkomandi heimsálfa tilnefndi Handknattleikssamband Asíu lið Sádi-Arabíu og Handknattleikssamband Evrópu tilefndi lið Íslands sem þátttökuþjóðir í heimsmeistaramótinu 2015 í Katar.

Lið Íslands og Sádi-Arabíu voru dregin af formanni COC, frammi fyrir framkvæmdastjórn IHF, í riðla C (Ísland) og D (Sádi-Arabia), beint í stað þjóðanna tveggja sem höfðu dregið sig úr keppni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert