Okkur líður betur með HM-sætið en Þjóðverjum

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Ómar

„Það er furðu góð tilfinning að vera komir á HM í Katar eftir allt saman, þó auðvitað hefði verið skemmtilegra að vinna Bosníu og tryggja okkur sætið þannig. Þá hefði ég líka getað sparað mér nokkur tár inni í klefa eftir leikinn í Höllinni," sagði Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður við mbl.is í kvöld eftir að fyrir lá að Íslandi hefði verið úthlutað sæti í heimsmeistarakeppninni í handknattleik sem hefst í Katar 15. janúar.

„En við tökum þessu sæti þó fagnandi og það má í raun segja að við höfum að vissu leyti unnið fyrir þessu lausa sæti af tveimur ástæðum, með því að vera á síðustu árum búnir að stimpla okkur inn sem ein af bestu þjóðum í heimi og einnig með því að láta ekki traðka á okkur og þar fær HSÍ stórt feitt prik í kladdann.

Ég geri mér enga grein fyrir því að svö stöddu af hverju við fengum þetta sæti eða á hvaða reglum þetta er byggt en eitt er víst að ef að við hefðum ekki náð þessum árangri á síðustu árum og ef HSÍ hefði bara haldið kjafti þá hefðum við ekki fengið þetta sæti. Ég held allavega að okkur líði betur með sætið okkar en Þjóðverjunum með sitt," sagði Björgvin, en þýska landsliðinu var úthlutað sæti á HM á umdeildan hátt fyrr á þessu ári.

Hversu mikilvægt er það fyrir liðið að taka þátt í mótinu í Katar?

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vera með á öllum stórmótum og það er líka þess vegna sem ég er svona sáttur með þetta. Þetta skiptir öllu máli til að geta byggt ofan á þá vinnu sem við höfum unnið til þessa og til þess að næstu kynslóðir geti notið góðs af því. Fyrir utan það að það verður HM í janúar í íslensku sjónvarpi og það gleður mitt hjarta mjög mikið enda er ekkert skemmtilegra en að spila fyrir Íslands hönd á stórmótum í janúar.“

Verður erfitt að fara á mótið með stimpilinn „varaþjóð“ á sér?

„Nei, það skiptir litlu máli fyrir okkur. Við höfum verið með stimpilinn „smáþjóð“ mjög lengi á okkur og hefur það bara eflt okkur ef eitthvað er. Menn muna vel eftir EM 92 í fótboltanum þar sem Danir komu inn sem svokölluð „varaþjóð" og það var það ekkert að trufla þá mikið. Þeir urðu bara Evrópumeistarar!“

Hvernig líst þér á riðilinn? Svíar, Frakkar, Tékkar, Egyptar og Alsírbúar eru mótherjarnir, hverjir eru möguleikar ykkar?

„Þetta eru allt góðar handboltaþjóðir og þróunin síðustu ár í handboltanum hefur verið þannig að bilið milli bestu og slökustu þjóðana hefur verið að minnka. Það þýðir að þú getur unnið hvaða þjóð sem er og tapað fyrir hvaða þjóð sem er. Planið er eins og alltaf að komast upp úr riðlinum og tel ég möguleikana á því góða ef að við náum að slípa okkur hratt saman í janúar.

Allavega lofa ég mikilli skemmtun fyrir landsmenn og það æðislegt að geta haldið handboltamerki Íslands á lofti í janúar. Sérstaklega í ljósi þess að íslenskt íþróttalíf er á þvílíkri siglingu þar sem að fótboltagæjarnir eru geggjaðir, körfuboltagauranir eru að gera gott mót og Gunnar Nelson er að berja menn útum allan heim. Þá verðum við jú fylgja með og koma okkur aftur á gamla sporið," sagði Björgvin Páll Gústavsson.

Björgvin Páll Gústavsson lofar mikilli skemmtun í Katar.
Björgvin Páll Gústavsson lofar mikilli skemmtun í Katar. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert