Ungverjar íhuga að leita réttar síns

Arnór Atlason og félagar í íslenska landsliðinu fengu í gær …
Arnór Atlason og félagar í íslenska landsliðinu fengu í gær úthlutað sæti á HM í Katar. mbl.is/Eva Björk

Ungverjar telja sig illa svikna að hafa ekki fengið sætið sem Handknattleikssamband Evrópu úthlutaði Íslandi á HM í Katar, eftir að Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin drógu sig úr keppninni.

Þegar Þjóðverjar fengu sæti á HM síðasta sumar á kostnað Ástralíu var það gert með þeim rökum að litið væri á niðurstöðu HM 2013 á Spáni. Þar stæðu Þjóðverjar best að vígi af þeim þjóðum sem ekki höfðu tryggt sér keppnisrétt inn á mótið. Með sömu rökum hefðu Ungverjar átt að vera næsta varaþjóð Evrópu en þeir náðu betri árangri en Íslendingar á HM.

Rökin fyrir því að Ísland fengi sætið eru þau að Ísland náði bestum árangri á EM í janúar, af þeim þjóðum sem ekki voru komin með sæti á HM.

„Það er með hreinum ólíkindum að við skulum lenda í þessu,“ sagði Iván Vetési, formaður handknattleikssambands Ungverjalands.

„Þetta er líklega sársaukafyllsta ákvörðunin sem hefði getað orðið. Við erum ekki sammála þessari niðurstöðu og íhugum hvaða möguleika við höfum,“ sagði Vetési og því ekki útilokað að Ungverjar hefji málaferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert