Keyrðum yfir ítalska liðið

Florentina Stanciu fór á kostum með íslenska landsliðinu gegn Ítölum …
Florentina Stanciu fór á kostum með íslenska landsliðinu gegn Ítölum í dag. Ómar Óskarsson

„Fyrst og fremst þá lékum við frábæra  6/0 vörn og síðan var Florentina frábær í markinu. Þessir tveir þættir lögðu grunn að sigrinum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, eftir níu marka sigur íslenska landsliðsins á ítalska landsliðinu, 26:17, í fyrri leik liðanna í 3. riðli forkeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik Chieti á Ítalíu í dag.

„Þrátt fyrir sex núll vörn þá lékum bakverðir okkar framarlega og mættu sterkum skyttum ítalska liðsins á mjög ákveðið.  Þetta gekk gríðarlega vel upp,“ sagði Ágúst sem sagði einbeitinguna hafa verið afar góða allan leikinn hjá íslenska liðinu sem aldrei hafi gefið þumlung eftir. Það hafi verið með fimm marka forskot í hálfleik, 13:8, en síðan bætt smátt og smátt við forystuna í síðari hálfleik þrátt fyrir að aðstæður hafi verið erfiðar. Full hús var af áhorfendum og hávaði var mikill.

„Okkur tókst að halda haus í sextíu mínútur í leiknum. Vörnin var góð og fyrir vikið fengum við mikið af hraðaupphlaupum sem nýttust vel. Segja má að við höfum keyrt yfir ítalska liðið í síðari hálfleik. Aginn var góður innan liðsins. Fyrir vikið unnum við níu marka sigur. Það er ekkert hlaupið að því að vinna svo stóra sigra í alþjóðlegum handknattleik í dag,“ sagði Ágúst Þór sem var í skýjunum eftir sigurinn.

Liðin mætast á nýjan leik í Laugardalshöllinni á sunnudaginn klukkan 16. Ágúst skorar á landsmenn að mæta í Höllina á leikinn og styðja við bakið á íslenska liðinu sem ætlar sér áfram og upp úr keppninni. „Stelpurnar eiga það skilið að fá góðan stuðning á sunnudaginn í Laugardalshöllinni. Þetta er frábært lið sem á skilið að landsmenn flyggi sér á bak við það,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert