„Klúðruðum okkar sénsum“

Ólafur Jóhann Magnússon í leiknum í dag.
Ólafur Jóhann Magnússon í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Akureyringurinn Ólafur Jóhann Magnússon er nú á sínu þriðja ári í herbúðum Fram. Þar hefur hann lifað tímana tvenna, varð Íslandsmeistari fyrsta árið en stendur nú í miklu basli með liðsfélögum sínum. Eftir stutt spjall við móður sína gaf hann sig á tal við mbl.is eftir tap liðsins gegn Akureyri í Olís-deildinni í handbolta, 31:24.

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn hörmulega og það má segja að tíu mínútna kafli hafi ráðið úrslitum. Við vorum allt í einu komnir 5-6 mörkum undir og eftir það þá vorum við allt of æstir. Við ætluðum að skora tvö mörk í hverri sókn og flýttum okkur full mikið. Akureyri spilaði ekki vel síðasta korterið en við klúðruðum bara okkar sénsum á að nálgast þá og gera leikinn spennandi í restina,“ sagði Ólafur, en Fram hafði unnið þrjá deildarleiki í röð í aðdraganda leiksins.

„Við erum búnir að vera flottir í síðustu leikjum, höfðum sótt sigra til Eyja og í Mosfellsbæ. Það var því ekkert annað í spilunum en að sigra hér í dag. Akureyringar hafa verið vængbrotnir í síðustu leikjum en leikur okkar var bara slakur og því áttum við ekki séns gegn þeim. Við vorum daprir í fyrri hálfleik en vorum samt bara marki undir. Við vorum að elta allan leikinn og það var erfitt. Við bara gáfum þeim þessi tvö stig. Nú er algjört lykilatriði að vinna Stjörnuna í lokaleiknum fyrir jólafrí,“ sagði Ólafur sem fer í heimahagana yfir hátíðarnar.

„Jú ég mun koma norður í fríinu og ætla að slappa vel af en reyna að halda mér í toppstandi með því að komast í eitthvað sprikl,“ sagði hinn geðþekki hornamaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert