Fannst dómararnir skera okkur á háls

Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir ótrúlegt tap sinna manna gegn ÍBV í Olís-deild karla í handbolta. Stjörnumenn voru með sex marka forystu í leiknum en lentu í fyrsta sinn undir þegar tæp mínúta var eftir og horfðu á eftir stigunum, lokatölur 22:21.

„Þetta er ákveðið reynsluleysi hjá okkur. Eftir glans fyrri hálfleik vorum við sannfærðir um að ætla að klára þetta en færðum þeim fullt af hraðaupphlaupum í síðari hálfleik og komum þeim inn í leikinn. Ég var líka ósáttur við dómgæsluna en maður má ekki láta það trufla sig en við féllum svolítið í þá gryfju,“ sagði Skúli í samtali við mbl.is. En töldu menn sigurinn í höfn í hálfleik?

„Við misstum einhverja einbeitingu og verðum að skoða það og þurfum bara að spila lengur en í 30 mínútur. Ég er með flottan hóp og við munum vinna úr þessu. Þetta er sárt tap því okkur finnst við hafa átt að klára þennan leik,“ sagði Skúli, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert