KR-ingar stöðvuðu Gróttu

Frá leik Gróttu og KR í kvöld.
Frá leik Gróttu og KR í kvöld. Ljósmynd/kr.is

KR-ingar komu á óvart í kvöld þegar þeir urðu fyrsta liðið til að taka stig af toppliði Gróttu í 1. deild karla í handknattleik. Liðin mættust í nágrannaslag á Seltjarnarnesi og lokatölur urðu 20:20.

Lengi vel stefndi þó í sigur KR-inga sem voru yfir í hálfleik, 14:9, og náðu sex marka forystu í byrjun síðari hálfleiks. Grótta náði síðan tvisvar forystunni undir lokin, 19:18 og 20:19, en KR náði að jafna metin í bæði skiptin.

Grótta hafði unnið fyrstu ellefu leiki sína í deildinni en er nú með þriggja stiga forskot á Víking sem er í öðru sætinu, 23 stig gegn 20 hjá Víkingum. KR er með 12 stig í sjötta sæti og  getur blandað sér í  baráttuna um sæti í umspilinu en fyrir ofan Vesturbæinga eru Fjölnir með 15, Selfoss 14 og Hamrarnir með 14 stig.

Viggó Kristjánsson skoraði 8 mörk fyrir Gróttu í kvöld og Þórir Jökull Finnbogason 6. Hjá KR var Sigurbjörn Markússon atkvæðamestur með 5 mörk og þeir Finnur Jónsson og Bjarni Jónasson gerðu 4 mörk hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert