Tímabilinu lokið hjá Einari Inga

Einar Ingi Hrafnsson í skotstöðu í leik með Arendal fyrr …
Einar Ingi Hrafnsson í skotstöðu í leik með Arendal fyrr á keppnistímabilinu. Ljósmynd/oifarendal.no

Keppnistímabilinu er lokið hjá handknattleiksmanninum Einari Inga Hrafnssyni. Hann þarf að ganga undir aðgerð á öxl á miðvikudaginn og verður frá keppni með norska úrvalsdeildarliðinu ÖIF Arendal  að minnsta kosti næstu sex mánuði af þeim sökum. Einar Ingi fékk úrskurð þessa efnis í dag.

Sex vikur eru síðan Einar Ingi meiddist í kappleik með Arendal. Vonir stóð til þess að hægt yrði að komast hjá aðgerð en nú er ljóst að hjá henni verður ekki komist. „Það liggur fyrir að ég verð að minnsta kosti sex mánuði að jafna mig. Svo það er ekkert annað sem liggur fyrir að einbeita sér að ná heilsu á nýjan leik og reyna að vera klár fyrir næsta keppnistímabil," sagði Einar Ingi við mbl.is.

Einar Ingi er á sínu öðru keppnistímabil með Arendal og hafði leikið afar vel með liðinu þangað til hann meiddist. Arendal er í efsta sæti norsku úrvalsdeildinni um þessar mundir auk þess liðið leikur til úrslita í norsku bikarkeppninni 30. desember.

Samningur Einar Inga við Arendal rennur út í vor og ljóst að óvissa tekur við hjá honum í samningamálum samhliða endurhæfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert