Valsmenn óstöðvandi á toppnum

Kári Kristján Kristjánsson línumaður Vals reynir að komast í gegnum …
Kári Kristján Kristjánsson línumaður Vals reynir að komast í gegnum Haukavörnina í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Valsmenn styrktu stöðu sína á toppi Olís-deildar karla þegar Haukar komu í heimsókn á Hlíðarenda í kvöld. Eftir að hafa haft sjö marka forystu í hálfleik héldu þeir uppteknum hætti eftir hlé og unnu öruggan sigur, 33:26.

 Eftir nokkurt jafnræði fyrstu mínúturnar lokaði Stephen Nielsen, markvörður Valsmanna, hins vegar búri sínu og heimamenn gengu á lagið, en Nielsen varði fjórtán skot í fyrri hálfleik og 23 í heildina.

Valsmenn röðuðu inn mörkunum á meðan ekkert gekk sóknarlega hjá Haukum, sem skoruðu einungis fjögur mörk fyrsta stundarfjórðunginn. Mestur varð munurinn níu mörk í fyrri hálfleik en Haukar náðu aðeins að rétta sinn hlut áður en hann var úti, staðan 17:10 í hálfleik.

Gestirnir úr Hafnarfirði mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og voru ekki búnir að gefast upp. Þeir byrjuðu af krafti áður en fór að draga af þeim á ný, og Valsmenn héldu þægilegu fimm, sex marka forskoti lengi vel.

Guðmundur Hólmar Helgason fékk beint rautt spjald í liði Vals tíu mínútum fyrir leikslok fyrir að stugga við Heimi Óla Heimissyni í loftinu að því er virtist, og við það sáu Haukar sér á leik á borði að gera áhlaup. Valsmenn stóðust það hins vegar og fóru með sigur af hólmi sem var aldrei í hættu, 33:26, og þeir eru á toppnum með 24 stig. Haukar hafa tólf stig í sjöunda sætinu.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Valur 33:26 Haukar opna loka
60. mín. Adam Haukur Baumruk (Haukar) tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert