Veit ekki hvað gerðist í fyrri hálfleik

„Þeir eru seigir Valsararnir. Haukar og Valur hafa verið svipuð lið með góða vörn og góð hraðaupphlaup en við höfum ekki verið að ná því hjá okkur. Vonandi smellur það samt fljótlega, ég hef enga trú á öðru,“ sagði Heimir Óli Heimisson, línumaður Hauka, í samtali við mbl.is eftir tap þeirra gegn Valsmönnum í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld, 33:26.

Valsmenn skoruðu einungis fjögur mörk fyrstu fimmtán mínútur leiksins og voru sjö mörkum undir í hálfleik. Stephen Nielsen, markvörður Vals, reyndist þeim erfiður og hann varði 14 skot í fyrri hálfleik einum.

„Ég veit ekki hvað var að gerast í fyrri hálfleik, við vorum að skjóta alltof mikið bara í hann og verðum að bæta okkur í því. Það er skotæfing á morgun og maður mætir á hana,“ sagði Heimir og sagði fyrri hluta tímabilsins vera mikil vonbrigði fyrir Hauka, sem eru í sjöunda sætinu.

„Já, algjörlega og við leynum því ekki. Við erum ósáttir við okkur og þurfum að æfa ennþá betur. Menn eru að leggja gífurlega mikið í þetta og það er leiðinlegt að uppskera ekki eftir því,“ sagði Heimir Óli, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann tjáir sig meðal annars um beina rauða spjaldið sem Valsarinn Guðmundur Hólmar Helgason fékk eftir viðskipti þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert