„Lífið brosir við mér “

Bjarki Már Elísson í loftinu í leik með Eisenach.
Bjarki Már Elísson í loftinu í leik með Eisenach. Ljósmynd/thsv-eisenach.de

„Lífið brosir við mér þessa stundina. Mér gengur vel í handboltanum og síðan eigum við kærastan von á okkar fyrsta barni í vor,“ sagði Bjarki Már Elísson, handknattleiksmaður hjá þýska 2. deildar liðinu Eisenach, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gærmorgun.

Bjarki Már hefur farið hamförum í síðustu leikjum Eisenach, sem situr í 9. sæti deildarinnar, og skorað 66 mörk í síðustu sex leikjum og alls 108 mörk á keppnistímabilinu. Sem stendur er Bjarki Már í 4. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar, aðeins 15 mörkum á eftir þeim sem trónir í toppsætinu.

„Helsta ástæðan fyrir því að ég hef skorað svo mikið upp á síðkastið er sú breyting sem orðið hefur á leik liðsins frá því að nýr þjálfari tók við í haust. Hann leggur áherslu á hraðari leik en áður. Fyrir vikið fáum við fleiri hraðaupphlaup, sem ég hef tekið þátt í að nýta. Ég er einnig farinn að taka vítaköstin. Sannast sagna þá kom fyrir að ég fékk varla boltann í hendur heilu leikina til að byrja með á keppnistímabilinu,“ segir Bjarki en bætir við: „Aukinn hraði hefur hins vegar komið niður á varnarleiknum okkar þannig að við ekki aðeins skorum meira en áður heldur fáum við fleiri mörk á okkur líka.“

Sjá allt viðtalið við Bjarka Má í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert