Evrópumeistararnir í undanúrslit

Katarina Bulatovic, leikmaður Svartfjallalands, sækir að Svíanum, Linnea Torstenson, í …
Katarina Bulatovic, leikmaður Svartfjallalands, sækir að Svíanum, Linnea Torstenson, í viðureign þjóðanna í Arena Zagreb í dag. AFP

Evrópumeistarar Svartfellinga í handknattleik kvenna tryggðu sér fyrir stundu sæti í undanúrslitum Evrópumeistaramóts með því að leggja Svía, 30:29, í lokaumferð milliriðlakeppninnar.  Svartfellingar hafna í efsta sæti milliriðils tvö og mæta liðinu sem hafnar í öðru sæti í milliriðli eitt í undanúrslitum á föstudag.

Það kemur í ljós síðar í dag hverjir andstæðingar Svartfellingar en mesta líkur eru fyrir að það verði annað hvort Danir eða Spánverjar.

Ótrúleg umskipti urðu í viðureign Svía og Svartfellinga í dag. Sænska liðið var með fimm marka forskot eftir fyrri hálfleik, 18:13. Evrópumeistararnir tóku öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik og unnu leikinn með eins marks mun. Svíar eru ekki alveg öruggir um annað sæti í riðlinum en meiri líkur en minni eru þó fyrir að þeir sleppi fyrir horn.  Hollendingar verða að vinna Frakka með a.m.k. tíu marka mun til þess að skilja Svía eftir. Líkur eru þar með fyrir að Noregur og Svíþjóð eigist við í hinni viðureign undanúrslitanna á föstudag. 

Rúmenar unnu Pólverja í fyrsta leik dagsins í milliriðli eitt, 24:18. Pólverjar reka lestina í riðlinum. Rúmenar voru úr leik í keppninni um sæti í undanúrslitum fyrir leikinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert