„Erum meðvitaðir um okkar stöðu“

Þröstur Þráinsson skoraði sex mörk úr horninu í kvöld.
Þröstur Þráinsson skoraði sex mörk úr horninu í kvöld. mbl.is/Golli

Þröstur Þráinsson var markahæstur í liði Hauka með 6 mörk þegar liðið tapaði naumlega 22:23 fyrir Aftureldingu í Hafnarfirði í kvöld. Fór þá fram síðasta umferðin áður en deildin fer í langt frí. 

„Trekk í trekk finnst mér við gera sömu mistökin. Við erum öflugir í fyrri hálfleik en þá slökum við á og hættum að sækja á markið í seinni hálfleik. Ætlunin er ekki að reyna að verja forskot en kannski gerist það ómeðvitað. Við fáum ekki jafn góð tækifæri í seinni eins og í þeim fyrri. Við gætum verið skynsamari bæði í vörn og sókn,“ sagði Þröstur en Haukar voru yfir 12:9 að loknum fyrri hálfleik. 

Afturelding missti sinn reyndasta mann, Jóhann Gunnar Einarsson, í 2 mínútna brottvísun þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Var þá staðan jöfn 22:22. „Við eigum bara að nýta okkur það. Svo einfalt er það. Við viljum auðvitað komast í yfirtölu og í góð færi. Slíkt á auðvitað að vera auðveldara þegar við erum manni fleiri. Við förum ekki á fullu í ógnanir og fengum að mér finnst frekar léleg færi þegar við vorum einum fleiri.“

Haukar eru í erfiðri stöðu. Liðið er aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og hefur ekki unnið í síðustu sex deildarleikjum. Þröstur segir andann í hópnum ekki vera slæman þrátt fyrir mótlætið. 

„Mórallinn er mjög góður. Við viljum vera á toppnum í öllum keppnum en það gengur ekki alltaf og því tökum við eins og menn. Samheldnin í hópnum er til staðar og leikmannahópurinn er flottur. Við getum gert betur og erum meðvitaðir um okkar stöðu. Ég hef fulla trú á því að við getum snúið gengi liðsins við. Getan er til staðar og í liðinu er blanda af reyndum leikmönnum og mjög efnilegum. Efniviðurinn er til staðar og það er í okkar höndum að snúa þessu við. Við erum sjálfum okkur verstir,“ sagði hornamaðurinn Þröstur Þráinsson ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert