Þriðji sigur KR á stuttum tíma

KR-ingar sækja sig í 1. deildinni.
KR-ingar sækja sig í 1. deildinni. Ljósmynd/Facebook-síða KR

KR-ingar eru komnir af alvöru í umspilsbaráttuna í 1. deild karla í handknattleik eftir sinn þriðja sigurinn í síðustu fjórum leikjum en þeir unnu ÍH mjög örugglega, 39:30, í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld.

KR var komið með yfirburðastöðu í hálfleik, 23:12, og jók forskotið enn frekar í seinni hálfleik en Hafnfirðingarnir löguðu stöðuna á lokakaflanum.

Hermann Ragnar Björnsson skoraði 7 mörk fyrir KR, Guðjón Finnur Drengsson, Fannar Kristmannsson og Kristján S. Kristjánsson 5 hver. Jóhann Birgir Ingvarsson gerði hvorki fleiri né færri en 14 mörk fyrir ÍH og Davíð Reginsson 6.

KR er enn í sjötta sæti en er nú aðeins stigi á eftir Fjölni sem er í þriðja sætinu. Grótta er með 23  stig, Víkingur 20, Fjölnir 15, Hamrarnir 14, Selfoss 14 og KR 14 stig. Efsta liðið fer beint upp í úrvalsdeildina en fjögur næstu lið fara í umspil um eitt sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert