Hildigunnur í langt bann vegna fornaldaraðferða

Hildigunnur Einarsdóttir þráði að spila meiri handbolta og ákvað því …
Hildigunnur Einarsdóttir þráði að spila meiri handbolta og ákvað því að skipta yfir til Molde. Nú lítur út fyrir að hún spili ekki meiri handbolta á tímabilinu. mbl.is/Ómar

Norska handknattleikssambandið hefur ákveðið að banna íslensku landsliðskonunni Hildigunni Einarsdóttur að spila með sínu nýja liði Molde það sem eftir lifir leiktíðar, eða fram til 1. júní.

Forsaga málsins er sú að Hildigunnur ákvað að rifta samningi sínum við Tertnes þar sem hún var orðin afar óánægð vegna ítrekaðra samningsbrota og lítils spiltíma. Hún gekk svo í raðir Molde um helgina þar sem Einar Jónsson er þjálfari.

Kvittun úr netbanka ekki nóg?

Forráðamenn Molde sendu með rafrænum hætti inn allar upplýsingar sem til þurfti til að ganga frá félagaskiptunum, laugardaginn 31. janúar, en frestur til félagaskipta rann út degi síðar. Þeir greiddu einnig þær 500 norsku krónur sem þarf að greiða norska handknattleikssambandinu vegna félagaskipta. Þetta gerðu forráðamenn Molde í gegnum netbanka og sendu handknattleikssambandinu kvittun með rafrænum hætti. Pappírskvittun fyrir því að greiðslan hefði gengið í gegn, sem sýndi að það hefði gerst 31. janúar, barst handknattleikssambandinu hins vegar 1. febrúar. Þá var fresturinn runninn út og því ákvað sambandið að setja Hildigunni í leikbann. Bannið gildir í fjóra mánuði, eða þar til opnað verður fyrir félagaskipti að nýju.

Hildigunnur Einarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hildigunnur Einarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

Forráðamenn Molde íhuga nú að ráða lögfræðing og leita réttar síns vegna málsins. Áfallið er mikið fyrir félagið en ekki síst fyrir Hildigunni sem sá fram á að geta fengið meiri spiltíma en áður og hjálpað Molde í baráttunni um að komast upp í norsku úrvalsdeildina.

Engin stoð fyrir þessu í reglunum

Randi Gustad, sérfræðingur TV2, segir það fornaldarhugsunarhátt að láta ekki rafræna kvittun duga sem sönnun fyrir því að félagaskiptagjaldið hafi verið greitt í tæka tíð.

„Ég þekki málið bara úr fjölmiðlum en samkvæmt því var öllum skjölum skilað og félagaskiptagjaldið greitt 31. janúar. Þá skil ég ekki hvernig handknattleikssambandið fer að því að túlka regluverkið þannig að grípa þurfi til leikbanns,“ sagði Gustad.

„Ég er búin að skoða reglurnar og ég sé enga stoð fyrir þessu. Það er ekki einu sinni þannig hjá dómstólum að reglur um peningagreiðslur séu svona strangar. Þetta snýst um að sýna að tímaramminn hafi verið virtur. Rafrænar kvittanir eru viðurkenndar úti um allt í samfélaginu. Við lifum á árinu 2015. Það hljómar eins og eitthvað aftan úr fornöld ef þetta gengur ekki í gegn. Þess vegna skil ég vel óánægjuna hjá Molde,“ sagði Gustad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert