FH í undanúrslit eftir magnaða spennu

FH-ingar fagna sætinu í undanúrslitunum.
FH-ingar fagna sætinu í undanúrslitunum. mbl.is/Golli

FH tryggði sér í kvöld síðasta sætið í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í átta liða úrslitum í Garðabæ í kvöld, 29:28. Þrír Stjörnumenn fengu að líta rauða spjaldið og baráttan var gríðarleg.

Liðin mættust einmitt síðast í deildinni á fimmtudagskvöldið þar sem FH-ingar höfðu betur. Stjörnumenn virtust ákveðnir að hefna fyrir það og höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik, sem var fjörugur á að horfa. Garðbæingar voru ávallt tveimur, þremur mörkum yfir þar sem varnir liðanna voru ekki í hávegum hafðar. Þegar flautað var til hálfleiks hafði Stjarnan þriggja marka forystu, 19:16.

Leikar fóru að æsast eftir hlé. Stjörnumenn byrjuðu betur en hægt og bítandi fóru gestirnir að saxa á forskotið. Þeir skoruðu meðal annars fjögur mörk í röð um miðbik hálfleiksins og hleyptu aukinni spennu í leikinn.

FH-ingar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar þrjár mínútur voru eftir og ljóst að barist yrði fram á síðustu sekúndu. Þegar ein mínúta var eftir var jafnt á tölum og FH í sókn. Andri Berg Haraldsson skoraði og heimamenn fengu eina sókn. Ágúst Elí varði lokaskotið og tryggði FH sigur, 29:28.

Leikurinn var harður eins og alvöru bikarleikur og fengu þrír Stjörnumenn að líta rautt spjald. Vilhjálmur Halldórsson fékk beint rautt í fyrri hálfleik fyrir brot á Magnúsi Óla Magnússyni og Þórir Ólafsson fékk svo sína þriðju brottvísun tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk svo Milos Ivosevic beint rautt fyrir að slá í andlitið á Benedikt Reyni Kristinssyni og Stjörnumenn orðnir fáliðaðir á bekknum í lokin.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Þórir Ólafsson stekkur upp í leiknum gegn FH í kvöld. …
Þórir Ólafsson stekkur upp í leiknum gegn FH í kvöld. Hann fór síðar af velli með rautt spjald. mbl.is/Golli
Stjarnan 28:29 FH opna loka
60. mín. Andri Hjartar Grétarsson (Stjarnan) tekur leikhlé Stjarnan fær eina sókn og verður að jafna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert