„Hrikalega skynsamir í síðari framlengingu“

Ásbjörn Friðriksson fagnar sigrinum í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson fagnar sigrinum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ásbjörn Friðriksson var stórkostlegur í sóknarleik FH þegar liðið sló Val út í undanúrslitum Coca Colabikarsins í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld. FH sigraði 44:40 eftir tvíframlengdan leik og Ásbjörn skoraði 14 mörk fyrir FH. 

„Í báðum framlengingum tókum við frumkvæðið með því að skora fyrsta markið. Það skiptir ótrúlega miklu máli. Í síðari framlengingu vorum við hrikalega skynsamir. Er það eitthvað sem við vorum ekki alltaf í venjulegum leiktíma. Þá fengum við einnig vörnina í gang en sóknarleikurinn var góður allan leikinn. Þetta er eitthvað til að byggja á,“ sagði Ásbjörn þegar Mbl.is tók hann tali að leiknum loknum og var hann furðu rólegur miðað við dramatíkina sem leikurinn bauð upp á. 

Valur hafði yfir 30:26 þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en FH tókst að jafna 32:32 áður en 60 mínútur voru liðnar. „Í venjulegum leiktíma fannst mér þetta vera stöngin út leikur hjá okkur en þeir fengu fráköst og boltinn féll einhvern veginn fyrir þá. Á lokamínútum snérist þetta bara við og hlutirnir féllu með okkur. Við náðum að jafna á einhvern ótrúlegan hátt,“ sagði Ásbjörn og vísar þar til þess að Ísak Rafnsson jafnaði á síðustu sekúndu venjulegs leiktíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert