Mamma kom með happanærbuxurnar

„Þetta var ótrúlegt hjá okkur," sagði Agnar Smári Jónsson,  markahæsti leikmaður ÍBV, í ævintýralegum sigurleik liðsins á Haukum, í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld.

„Við vorum 18:12 undir en snúum leiknum okkur í hag," sagði Agnar Smári. „Vörnin small og síðan er karakterinn í liðinu þvílíkur eins og allt samfélagið í Eyjum er.  Eyjamenn koma alltaf til baka. Því einu kynnast menn sem búa í Eyjum," sagði Agnar Smári sem átti vart orð til að lýsa tilfinningum sínum.

„Síðan var það heppni hjá mér að mamma kom með happanærbuxurnar í Höllina í kvöld eftir að ég hringdi í hana í morgun og bað hana um að koma með auka nærbuxur," sagði Agnar Smári glaður í bragði.

„Við mætum FH-ingum eins við mættum í dag nema að við verðum betri í fyrri hálfleik. Ég get lofað því," sagði Agnar Smári Jónsson en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert