Bikarinn er tileinkaður minningu Svenna

„Ég klæddist happanærbuxunum og þær skiluðu sínu," sagði Agnar Smári Jónsson, leikmaður ÍBV, eftir sigurinn á FH í úrslitum Coca Cola bikars karla í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld.

Agnar Smári hafði orð á því í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Haukum í undanúrslitum í gær að móðir hans hafði komið með svokallaðar lukku nærbrækur til hans fyrir undanúrslitaleikinn. „Ég var síðan í buxum í dag og þær skiluðu sínu," sagði Agnar Smári glaðbeittur enda er hann nú ásamt félögum sínum Íslands- og bikarmeistari í handknattleik.

En að öllu gamni slepptu þá sagði Agnar Smári Eyjalið vera þannig gert að þar gefast menn aldrei upp og með þúsund stuðningsmenn á hlíðarlínunni þá slá menn ekki slöku við né leggja árar í bát þótt á móti blási.

Agnar Smári sagði lið ÍBV tileinka þennan bikar Sveini í Kertagerðinni í Eyjum sem féll frá á dögunum en hann var einn traustasti stuðningsmaður ÍBV-liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert