Akureyringar höfðu betur í Safamýrinni

Frá viðureign Fram og Akureyrar í dag.
Frá viðureign Fram og Akureyrar í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Akureyri gerði góða ferð suður yfir heiðar í dag og lagði Fram, 26:24, í Olís-deild karla í handknattleik í leik sem var ansi kaflaskiptur.

Fram byrjaði betur og komst meðal annars í 5:1 áður en Akureyringar komust inn í leikinn. Liðin skiptust á að hafa forystunna út fyrri hálfleikinn, en að honum loknum höfðu gestirnir eins marks forystu, 13:12.

Akureyringar náðu snemma þriggja marka forystu eftir hlé, en leikurinn jafnaðist á ný þegar leið á síðari hálfleikinn. Þá skoruðu gestirnir hins vegar sex mörk gegn einu frá Fram, tóku frumkvæðið á ný og uppskáru að lokum sigur, 26:24, eftir æsispennandi lokamínútur.

Kristján Orri Jóhannsson var markahæstur Akureyringa með 9 mörk auk þess sem Tomas Olason varði 21 skot í marki þeirra. Stefán Baldvin Stefánsson var langmarkahæstur hjá Fram með 9 mörk.

Akureyringar fóru með sigrinum upp fyrir Hauka og jöfnuðu ÍBV að stigum í fimmta til sjötta sæti deildarinnar með tuttugu stig, en Fram er enn einu sæti frá fallsvæðinu með þrettán stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Fram 24:26 Akureyri opna loka
60. mín. Sigurður Örn Þorsteinsson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert