Ramune var markahæst

Ramune Pekarskyte í leik með íslenska landsliðinu.
Ramune Pekarskyte í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Ómar

Ramune Pekerskyte, landsliðskona í handknattleik, var í stóru hlutverki hjá Havre AC þegar lið hennar tók á móti toppliðinu Fleury Loiret í frönsku deildakeppninni í kvöld.

Ramune skoraði 6 mörk og var markahæst í liði Havre en það var þó ekki nóg og lið hennar beið lægri hlut, 22:25, eftir hörkuslag þar sem Havre vann upp sex marka forskot og jafnaði. Ramune gerði sitt sjötta mark þegar hún jafnaði metin í 22:22 þegar sex mínútur voru eftir. En toppliðið skoraði síðan þrjú síðustu mörkin í leiknum.

Havre AC er í sjöunda sæti af tíu liðum í deildinni með 26 stig, fjórum stigum meira en neðsta liðið. Fleury Loiret er með 41 stig á toppnum en Nice, lið Karenar Knútsdóttur, er í fimmta sæti deildarinnar með 29 stig.

Karen skoraði 7 mörk á föstudagskvöldið þegar Nice vann stórsigur á Mios Biganos, 35:22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert