Tólf tíma vakt hjá Þorgeiri og Sigurði

Þorgeir Lárus Árnason og Sigurður Viðarsson á miðri vaktinni við …
Þorgeir Lárus Árnason og Sigurður Viðarsson á miðri vaktinni við tímavarðarborðið í Laugardalshöll í dag þar sem standa yfir úrslitaleikir yngri flokkanna í Coca Cola-bikarkeppninni í handknattleik. mbl.is/íben

Þorgeir Lárus Árnason og Sigurður Viðarsson standa vaktina við tímavarðarborðið í Laugardalshöll í dag þegar úrslitaleikir Coca Cola bikarsins í yngri flokkunum í handboltanum fara fram. Þeir félagar eru tímaverðir á öllum leikjunum sjö sem fram fara en alls líða um 12 tímar frá því að flautað var til fyrsta leiksins í morgun þangað til þeim síðasta lýkur í kvöld þegar Valur og Haukar eigast við í 2. flokki karla.

Þorgeir og Sigurður hafa um sex ára skeið verið tímaverðir á leikjum meistaraflokks karla og kvenna hjá HK og líkar vel, að sögn. Þeir hafa staðist námskeið í tímavörslu sem Handknattleikssamband Íslands hefur staðið fyrir árum saman undir stjórn Guðjóns L. Sigurðssonar. Þorgeir og Sigurður hafa endurnýjað réttindi sín á tveggja ára fresti.

Þeir sögðu í samtali við mbl.is í dag að þeir hefðu mikla ánægju af því að vera tímaverðir á kappleikjum. Auk samviskusemi þá leggja þeir mikla áherslu á snyrtilegan klæðnað eins og sjá má á myndinni sem hér fylgir. Þeir klæðast ævinlega jakkafötum og eru með hálsbindi. Segja þeir hafa þá fyrirmynd af kappleikjum í Þýskalandi og víðar um Evrópu.

Spurðir hvort það væri ekki lýjandi að sitja við í um tólf tíma og halda einbeitingu sögðu þeir svo ekki vera enda báðir miklir áhugamenn um handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert