Aðeins að skipta um haus

Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég var að vonast til að þetta héldist leynt þangað til ég vissi hvort ég gæti þetta eða ekki,“ sagði Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður í samtali við mbl.is. Hann hefur ákveðið að draga tímabundið fram keppnisskóna, æfingaskóna hið minnsta, og æfa í skamman tíma með danska meistaraliðinu KIF Kolding Köbenhavn sem Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari stýrir.

„Ég ætla að láta reyna á það hvort ég á eitthvert erindi í handboltann aftur. Ef svo er þá er hugmyndin sú að ég aðstoði KIF í leikjunum við Zagreb í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. En ef ég er ekki klár í þetta þá spila ég ekki, verð kannski með á bekknum,“ sagði Ólafur og bætti við að nú væri hlé á því verkefni sem hann ynni að við hönnun forrits og því gæti hann nokkuð áhyggjulaus farið til Danmerkur og æft með KIF Kolding.

Leikir KIF gegn Zagreb fara fram 14. og 22. mars og verður fyrri leikurinn í Króatíu en sá síðari í Danmörku. Sigurliðið úr leikjunum tveimur tryggir sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég hef tækifæri til að fara núna, aðeins að skipta um haus og hugsa um eitthvað annað.“

„Ég veit ekki hvort ég er í formi til að spila. Ég ætla að æfa með þeim í viku og sjá til hvort eitthvert vit er í þessu eða ekki.  Kannski kem ég bara til baka. Það ætti að koma í ljós eftir aðra helgi hvort ég verð í standi eða ekki. Þangað til er bara eins og ekkert sé að gerast,“ segir Ólafur sem lék með nokkrum leikmönnum KIF Kolding Köbehavn hjá danska meistaraliðinu AG Köbenhavn leiktíðina 2011-2012.

„Kasper Hvidt markvörður, sem er geggjaður [með jákvæðum formerkjum], og Aron Kristjánsson nefndu þetta við mig. Þetta er ekkert flókið,“ segir Ólafur og hlær við og leggur áherslu á að hann verði hjá danska liðinu í tvær, að hámarki þrjár. Ekki standi til að hann leiki með liðinu út keppnistímabilið og verði með í keppninni um danska meistaratitilinn.

„Ég held að ég sé í fínu formi en það verður að koma í ljós. Kannski vilja menn að ég verði þeim aðeins móralskur stuðningur. Ef til vill dugir það,“ segir Ólafur og undirstrikar að hann ætli ekki að leika með liðinu nema hann telji sig eiga erindi inn á leikvöllinn á nýjan leik.

„Mér finnst reyndar að ég ætti frekar að vera með Völsurunum en þeir eru í fínum málum um þessar mundir,“ segir handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert