PSG varð af dýrmætu stigi

Róbert Gunnarsson í hörðum slag í Meistaradeildarleik með París SG.
Róbert Gunnarsson í hörðum slag í Meistaradeildarleik með París SG. AFP

Franska stórliðið PSG, sem Róbert Gunnarsson leikur með, varð af mikilvægu stigi í toppbaráttunni í frönsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld þegar liðið náði aðeins jafntefli, 29:29, við Tremblay á útivelli. PSG er enn stigi á eftir Montpellier sem á auk þess leik til góða. 

Róbert Gunnarsson skoraði þrjú af mörkum PSG í leiknum eins Daninn Mikkel Hansen. Daniel Narcisse var markahæstur með níu mörk.

Arnór Atlason og félagar í St Raphael eru enn á góðri siglinu og sitja í þriða sæti. Þeir unnu Sélestat, 31:27, á útivelli í kvöld. Arnór skoraði eitt mark fyrir St Raphael. Snorri Steinn Guðjónsson lék ekki með Sélestat vegna meiðsla. Selestat er í næst neðsta sæti og virðist kraftaverk til þess að bjarga sér frá falli úr deildinni.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fimm mörk fyrir Nimes sem tapaði naumlega fyrir meistaraliði síðustu leiktíðar, Dunkerque, 25:24, á heimavelli Nimes.  Ásgeir og félagar fóru illa að ráði sínu því þeir fengu á síg þrjú síðustu mörk leiksins. Nimes er í 11. sæti af 14 liðum og er þrátt fyrir tapið í kvöld nokkuð öruggt um að halda sæti sínu í deildinni.

Ramune Pekarskyte, landsliðskona í handknattleik, skoraði þrjú mörk fyrir Havre í dag þegar liðið tapaði naumlega á útivelli fyrir Issy, 29:28. 

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, var í sigurliði Nice í kvöld þegar liðið lagði Toulon, 25:23. Karen skoraði í tvígang.  Nice er í fimmta sæti deildarinnar en Havre er í 8. sæti en tíu lið skipa 1. deild kvenna í Frakklandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert