Erfiðar vikur framundan verði ég með gegn Zagreb

Ólafur Stefánsson á æfingu með Kolding í dag.
Ólafur Stefánsson á æfingu með Kolding í dag. Mynd/KIF Kolding

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson segir æfingar ganga vel og er afar sæll hjá danska meistaraliðinu KIF Kolding en eins og við sögðum frá fyrr í vikunni mun Ólafur æfa með liðinu og spila mögulega gegn Za­greb í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ólafur fór á fyrstu æfinguna í dag.

„Mér fannst þetta bara ganga vel í dag. Ég er eðlilega aðeins aumur í líkamanum en maður gat nú vitað það. Ég mun æfa stíft næstu daga. Það kom mér á óvart að kollurinn væri í rauninni klár. Ég er virkilega ánægður með það,“ sagði Ólafur við heimasíðu félagsins.

„Ég er ótrúlega ánægður að vera hérna og þetta tækifæri. Þetta er mjög gott lið sem æfir saman í augnablikinu. Ef ég get lagt eitthvað af mörkum þá verð ég stoltur af því,“ sagði Ólafur sem lagði skóna á hilluna fyrir hálfu öðru ári síðan.

„Ég hef æft stíft síðustu vikur. Er búinn að hjóla, hlaupa og spila smá fótbolta sem hefur haldið mér í formi en það er auðvitað ekki það sama og spila handbolta í þessu umhverfi [hjá Kolding]. Það bíða mín erfiðar vikur ef ég ætla að vera með á móti Zagreb,“ sagði Ólafur.

Ólaf­ur kom óvænt inn í hóp KIF Kolding í vikunni þar sem hann á að leysa af hólmi stór­skytt­una Kim And­ers­son en Sví­inn get­ur ekki spilað leik­ina vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert