Haukar niðurlægðu erkifjendurna

Magnús Óli Magnússon úr FH reynir skot að marki Hauka …
Magnús Óli Magnússon úr FH reynir skot að marki Hauka í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar niðurlægðu hreinlega granna sína í FH á þeirra eigin heimavelli í Kaplakrika í kvöld með þrettán marka sigri, 33:20, í Olís-deild karla í handknattleik. Haukar komust í 15:2 á fyrstu átján mínútum leiksins.

FH byrjaði leikinn fáránlega illa. Haukar hreinlega léku sér að því að skora og lokuðu svo vel á sóknarleik FH-inga sem oftar en ekki endaði á slöku skoti sem Giedrius Morkunas varði. Haukar komust í 11:1 áður en Þorgeir Björnsson náði loks að skora annað mark FH á 18. mínútu! Haukar komust svo í 15:2 en þá kom loksins eitthvert lífsmark í FH-liðið síðustu mínútur fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var 18:7. Þá þegar höfðu níu leikmenn Hauka komist á blað og Morkunas varið 11 skot.

Það var greinilegt að missir FH-inga var of mikill, en þeir voru án Ísaks Rafnssonar og Benedikts Reynis Kristinssonar sem báðir meiddust í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. FH var aðeins með 12 leikmenn á skýrslu, og þar á meðal var þjálfarinn Halldór Jóhann Sigfússon. Hann kom þó ekkert við sögu í leiknum.

FH náði að minnka muninn í sjö mörk á fyrstu tíu mínútunum í seinni hálfleik, 21:14, og var allt annað að sjá til liðsins en í fyrri hálfleik. Það hjálpaði til að Haukar virtust slaka á klónni og Magnús Óli Magnússon komst í ham. Þetta dugði þó skammt. Patrekur Jóhannesson tók leikhlé og Haukar tóku aftur við sér og lönduðu risasigri.

Nokkur hiti var í leiknum undir lokin og Theodór Ingi Pálmason fékk beint rautt spjald fyrir brot á Janusi Daða Smárasyni.

Morkunas varði samtals 21 skot í marki Hauka og var mjög góður en mörg hver voru þau reyndar auðveld viðureignar. Haukar spiluðu vel allir sem einn og sýndu algjöra yfirburði gegn grönnum sínum sem þó eru enn stigi fyrir ofan í deildinni.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

FH 20:33 Haukar opna loka
60. mín. Giedrius Morkunas (Haukar) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert