Mættum ekki til leiks

„Við mættum ekki til leiks. Fyrri hálfleikur bar þess keim," sagði Bjarki Sigurðsson, þjálfari HK, sem mátti sætta sig við þriggja marka tap gegn sínum gömlu lærisveinum ÍR, 31:28, í Olís-deild karla í handknattleik í Austurbergi í kvöld.

„Við fengum á okkur átján mörk í fyrri hálfleik en náðum aðeins að skora tólf gegn þeim. Varnarleikurinn var í molum og sóknarleikurinn var hægur. 

Við fórum vel yfir stöðuna í hálfleik og náðum að byrja ágætlega en þegar við náðum að nálgast ÍR-liðið þá ráku hver mistökin önnur hjá okkur. ÍR-ingar náðu forskoti á nýjan leik," sagði Bjarki og ómyrkur í máli í garð sinna manna.

Staðan HK á botni deildarinnar versnar með hverjum leiknum en þetta var átjánda tap liðsins í 21 leik. Bjarki segir að vissulega verði brekkan erfiðari með hverjum leiknum en menn ætli ekki að leggja árar í bát.

Nánar er rætt við Bjarka Sigurðsson á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert